Helga Óskarsdóttir hefur um langt skeið unnið með örsmáar mannvistaleyfar sem merkja umhverfi borgarinnar. Hugmyndaheimur Helgu gengur inn í líkama borgarinnar, þrýstir sér inn fyrir hann í þeirri viðleitni sinni að ná innfyrir, undir yfirborðið. Þannig birtir Helga okkur áferðir af menningarlegum líkama borgarinnar. Hin örsmáu ör, hnúðar og skellur sem skapaðar hafa verið af manna völdum inn í borgarlandslagið ganga inn í hugarheim hennar, þar bólgna áferðirnar út, valda þrýstingi þar til þeim er loks varpað á brott, þrýst upp með myndmáli.
Verkin sem Helga sýnir í Víðihlíð sýna ör á líkama hússins, örin varpast fram að vitund áhorfenda úr annarri vídd, skapaðri með samsömun Helgu við efni og áferð. Myndheimurinn tekur áhorfandann undir yfirborðið, á bak við áferðirnar, inn í hliðarvíddir efnisheimsins. Verkin eru spegill að handan hins áþreifanlega, settur upp í því skyni að gefa áhorfendum kost á því að spegla sig þaðan.